154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

bankasala og traust á fjármálakerfinu.

[15:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og hef fullan skilning á því að það sé mikilvægt að taka þetta hér til umfjöllunar. Við getum, held ég, öll verið sammála um það að við gætum verið komin lengra í þeirri þróun að hafa meira traust á fjármálafyrirtækjum, bönkum, eignarhaldi þeirra. Sá sem hér stendur er einn þeirra sem hafa orðið fyrir vonbrigðum með margt af því sem hefur gerst hjá fjármálafyrirtækjum á liðnum misserum, árum, í þeirra framgangi þegar eitthvað hefur staðið til, eins og t.d. við síðustu sölu á Íslandsbanka þegar í ljós kom að ýmsir aðilar á fjármálamarkaði hefðu getað umgengist lög og reglur af meiri virðingu heldur en þeir raunverulega gerðu. Ég hef alveg áhyggjur af því með hv. þingmanni. Ég tel hins vegar að sú leið sem hér verður farin ef þingið klárar það frumvarp sem hér er lagt til um áframhaldandi sölu á Íslandsbanka tryggi það algerlega að gætt verði að þessum þáttum með miklu betri hætti. Hér er þingið að setja fyrst og fremst allar reglurnar. Ráðherra mun þar af leiðandi ekki taka í raun og veru neinar aðrar ákvarðanir heldur en að framkvæma það sem þingið hefur ákveðið og innan þess ramma sem þingið hefur sett framkvæmdarvaldinu til að framkvæma eins og er í svo gríðarlega mörgum öðrum verkefnum sem þingið setur framkvæmdarvaldinu sem verkfæri. Þannig að ég held, já, að þetta muni verða frekar til þess að stuðla að því að menn beri meiri virðingu og hafi meiri trú á fjármálafyrirtækjum og eignarhaldi þeirra með þessari sölu heldur en ella.